149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Við nánari eftirgrennslan er ekki umsögn frá Neytendasamtökunum um þetta mál og segir það kannski allt um það hversu mikil neytendavernd er þarna á ferðinni að samtökin hafa ekki séð ástæðu til að senda inn umsögn nema þau séu svo mjög fylgjandi málinu að þau hafi ekki talið þörf á því.

Hinn stóri aðilinn á Íslandi sem er sífellt á vaktinni fyrir neytendur, Alþýðusamband Íslands, t.d. varðandi verðkannanir og aðgang að þjónustu og eitthvað slíkt, hefur lýst sig alfarið á móti þessari innleiðingu eins og fram kom hjá hv. þingmanni og gerir það m.a. vegna markaðsvæðingar raforkunnar. Greinar Sjálfstæðisþingmanna eru bara til heimabrúks líkt og fyrirvari þeirra þar sem þeir skrifa þessar greinar til að sannfæra sjálfa sig fyrst og fremst. Við vitum að baklandið hefur risið upp og er mjög gegn því sem þarna á að gera.