149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Yfirlýsing EFTA og ESB um skilning á að Ísland ætli ekki að ryðja úr vegi hindrunum gegn tengingu yfir landamæri draga sennilega úr líkum málshöfðunar á hendur Íslandi fyrir að sinna ekki þeirri skyldu. Þessar yfirlýsingar skerða þó ekki rétt hagsmunaaðila, til að mynda sæstrengjafyrirtækja eða þeirra sem myndu vilja leggja slíka strengi, t.d. National Grid, Super Atlantic eða fleiri aðila, ef Ísland ryður ekki hindrunum úr vegi sem standa gegn tengingum yfir landamæri. Þessir aðilar öðlast rétt, það er nefnilega svo, samkvæmt tilskipun 72/2009 og reglugerð 713/2009 og gildir þá einu hvort pólitískar yfirlýsingar hafi verið gefnar. Þær binda einvörðungu hendur þeirra sem þær gáfu á pólitískan hátt en ekki að öðru leyti.

Það er ekki óþekkt að þeir sem vasast í stjórnmálum gangi á bak orða sinna eða þeim snúist hugur. Orðalagið: Aðildarríkin skulu vinna náið saman og „fjarlægja hindranir“ í vegi viðskipta með orku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum bandalagsins á sviði orku. Getur þetta verið eitthvað skýrara, herra forseti?

Í 36. gr. tilskipunarinnar stendur að eftirlitsyfirvald skuli gera „allar viðeigandi ráðstafanir til að ná eftirfarandi markmiðum innan ramma skyldna þeirra og valdsviðs […] að afnema takmarkanir í viðskiptum með rafmagn milli aðildarríkjanna, þar með talið að þróa viðeigandi flutningsgetu yfir landamæri til að anna eftirspurn og auka samþættingu landsmarkaða sem getur auðveldað raforkuflæði innan bandalagsins.“

Samþætta, það þýðir að tengja. Tilskipunin gengur því gegn þessum yfirlýstu markmiðum Íslands um að Alþingi skuli taka ákvarðanir um viðskipti með raforku til annarra landa.

Stefna ESB er skýr í þessum efnum. Með samþykkt tilskipunarinnar nr. 72/2009 undirgengst Ísland það eða þá stefnu öllu heldur og Orkustofnun er falið að vinna að þeirri tilskipun og ná fram samkvæmt tilskipuninni þeim markmiðum sem í henni felast. Í þessu felst mótsögn, hæstv. forseti. Hún gengur trauðlega upp. Ég velti þessu upp hér vegna þess að þetta er kjarni málsins. Þetta snýst ekki um neytendavernd, þetta snýst allt um Evrópusambandið og markmið þess og að ná fram markmiðum Evrópusambandsins. Þetta snýst ekki um neytendavernd og hagsmuni neytenda, 350.000 hræða norður í hafi. Ekki á nokkurn hátt.

Það sem ég var að fara hér yfir og eru beinar tilvitnanir upp úr þessari innleiðingargerð snýst um þetta. Aðalmálið er: Lögin koma frá Evrópusambandinu, flæða inn í gegnum EES-samstarfið til Íslands. Það virkar ekki á hinn veginn. Það sem við fáum út úr þessu er að við höfum komist inn á markaði með því að innleiða þessi lög. Þetta er grunnurinn og kjarninn í þessu samstarfi okkar og það er margt gott við það, ég dreg ekki dul á það, en ekki allt.