149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Það er tvennt sem mig langar að nefna varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á. Fyrst vil ég segja að Evrópusambandið má þó eiga það, og stofnanir þess, að það er ekki í miklum feluleik með markmiðin. Þau liggja fyrir í gögnum frá Evrópusambandinu og þarf ekki annað en að fara inn á heimasíðu ACER, markmiðin liggja þar býsna skýr fyrir.

Síðan er eitt apparat í viðbót sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir það, byrjar á CE og síðan er eitthvað, ég næ kannski að bæta því inn í einhvern tíma seinna. Heimasíða þess eftirlitsapparats er mjög skýr sömuleiðis um þau markmið sem ætlunin er að ná fram. Það er þó kostur í þessu öllu að markmiðin frá þeim endanum séð eru alveg skýr og liggja fyrir og auðveldara er að fá upplýsingar þar en frá stuðningsmönnum frumvarpsins, að því er virðist, og þá sérstaklega kannski frá fulltrúum utanríkisráðuneytisins eða úr utanríkismálanefnd eftir að málið fór þangað inn.

Hitt atriðið sem mig langar að nefna og er kannski spurning til hv. þingmanns snýr að þeim vangaveltum hans um mögulega skaðabótaábyrgð. Ég hef sagt það nokkrum sinnum í ræðum í öðru samhengi en ekki í þessu máli, að það virðist vera orðinn sjálfstæður tekjustofn hjá heildsölum landsins að sækja skaðabætur í vasa ríkissjóðs vegna meints tjóns vegna rangrar innleiðingar á hinu og þessu regluverkinu. Deilir hv. þingmaður þeim áhyggjum með mér (Forseti hringir.) að slíkt sé yfirvofandi og þá hugsanlega með tölum sem eru í allt öðru samhengi en sem við þekkjum (Forseti hringir.) úr matvælamálum ýmiss konar?