149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:23]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Já, það er alveg rétt og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að þegar maður les texta sem kemur frá Evrópusambandinu og frá stofnunum þess er alger samfella og samhljómur í þeim textum, hvort sem það er reglugerð sem byggir á lögum eða hvernig sem það er. Það er ekki verið að pukrast neitt með hlutina. Evrópusambandið veit alveg hvað það vill, það veit alveg hvað þarf. Það veit hvaða áskoranir eru að takast á við og það mótar sér stefnu til að takast á við þær áskoranir. Ég get borið virðingu fyrir því, alveg 100%.

Varðandi skaðabætur, þær voru reyndar ekki nefndar í ræðu minni en hér hefur verið rætt um að möguleiki sé á að til þeirra komi. Ég held að líkur séu til þess að við innleiðingu á gerðum sem þessum, burt séð frá hinum pólitísku yfirlýsingum, geti staðið til lögmætar væntingar hjá þeim aðilum sem eiga hagsmuni undir. Ef ekki er staðið rétt að innleiðingunni geti krafa myndast á íslenska ríkið. Íslenska ríkið er náttúrlega ekkert annað en skattborgarar sem sitja svo uppi með það að borga brúsann, líkt og í þeim málum sem hv. þingmaður vitnaði til hjá heildsölum eða innflytjendum þar sem innleiðingin var röng í hráakjötsmálinu. Ég held að það hljóti að vera alveg sambærilegt.