149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Þar er áhugaverð hugsun: Er möguleiki fyrir okkur Íslendinga að innleiða lög sem jafnvel eru til einhvers staðar annars staðar og eru að annarri fyrirmynd sem gætu nýst neytendum hér á landi? Ég reikna með og gef mér að hann sé þá að vísa til laga og neytendaverndar um raforku og orkumarkaðinn.

Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er ákvæði sem leyfir aðildarríkjum að innleiða lög og breyta lögum sem falla þá undir geira þessara laga svo fremi sem það hefur ekki áhrif á samninginn. Þar gæti málið kannski vandast en varðandi neytendaverndina skal ég fyrstur manna éta hatt minn og staf ef neytendaverndin er svo mikil og felst svo ríkulega í þessari innleiðingu sem við ræðum hér að hún trompi allt annað sem hér hefur verið rætt og þær áhyggjur sem við höfum lýst.

Ég kalla eftir því að fylgismenn innleiðingarinnar komi hingað og leggi afdráttarlaust á borðið fyrir okkur hvað felist í þessari neytendavernd. Ég hef leitað að því, eins og aðrir þingmenn hér, hvað það sé nákvæmlega, hvort ávinningurinn í því sé að það sé sáluhjálparatriði að vita að maður geti skipt um orkusala jafnvel þó að það sé ekki neinn fjárhagslegur ávinningur í því (Forseti hringir.) heldur bara þessi tilfinning að maður sé frjáls. Það má vera að það sé og það má spyrja hvernig við metum það.