149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

langir þingfundir.

[15:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka hinu frábæra starfsfólki Alþingis fyrir hvað það hefur staðið vaktina vel undanfarna daga og nætur. Erindið er að benda forseta á að það er hægt að haga tímastjórnun þingsins betur en raun hefur borið vitni undanfarna daga. Þegar ég var í ríkisstjórn voru vinstri menn í stjórnarandstöðu og þeir þurftu, eins og þeirra er oft háttur, að tjá sig heilmikið, tala mikið um alls konar mál, bæði stór og smá. Okkur datt ekki í hug að reyna að þagga niður í þeim eða fela það sem þeir hefðu að segja með því að láta þá tala kl. 5, 6, 7 eða 8 um morgun. Enda hefði það ekki haft neitt að segja og ekki verið til þess fallið að skila betri eða meira tæmandi umræðu eða flýta störfum þingsins. Ég hvet forseta til að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að nýta tíma þingsins betur en raun hefur borið vitni.