149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

fyrirvarar Norðmanna við þriðja orkupakkann.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég geri ráð fyrir að rétt sé sem forseti heldur fram, að hæstv. fjármálaráðherra hafi fylgst vel með umræðum hér í þinginu. Eitt af fjölmörgu nýju og ósvöruðu sem barst í tal hér síðastliðna nótt, raunar í þessu tilviki snemma nætur, voru svokallaðir fyrirvarar, átta fyrirvarar norska Stórþingsins við þriðja orkupakkann.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hefur hann kynnt sér þessa fyrirvara? Þeir eru mjög áhugaverðir á ýmsan hátt því að þeir snúa flestir eða allir að atriðum sem við höfum haft miklar áhyggjur af hér á Íslandi varðandi þennan þriðja orkupakka og verið svarað á þann hátt að þetta væru jafnvel einhverjir hugarórar. Menn væru að ímynda sér að orkupakkinn hefði miklu meiri áhrif en hann hefur. Engu að síður sá norska Stórþingið ástæðu til þess að leggja fram átta lagalega fyrirvara sem snúa einmitt að þessum atriðum, vegna þess að þeir höfðu raunverulegar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans hvað þetta varðar.

Hafi hæstv. ráðherra kynnt sér fyrirvara Norðmanna, hvers vegna í ósköpunum fer ríkisstjórnin þá leið sem hún fer með sína svokölluðu fyrirvara, athugasemd í greinargerð og hvar menn eru að reyna að finna þetta? Hvers vegna í ósköpunum lagði ríkisstjórnin ekki a.m.k. fram jafn skýra fyrirvara og norska Stórþingið við þetta mál?

Reyndar virðast jafnvel fyrirvarar norska þingsins ekki hafa haft mikið að segja, enda hefur þeim ekki verið svarað af hálfu Evrópusambandsins núna 14 mánuðum síðar. En engu að síður lýsa þeir mjög skýrt þeim áhyggjum sem norsk stjórnvöld hafa af þessum þriðja orkupakka. Hvers vegna hefur íslenska ríkisstjórnin ekki sambærilegar áhyggjur?