149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

almannatryggingar.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við 570.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslur eftirlaunaþega fá þeir ekki krónu frá Tryggingastofnun ríkisins. En hvað fær lífeyrisþegi frá Tryggingastofnun ríkisins í boði núverandi ríkisstjórnar með lögum um greiðslu hálfs lífeyris? Jú, ef ellilífeyrisþegi hefur 248.106 kr. úr lífeyrissjóði fær hann hálfan á móti hálfum frá ríkisstjórninni. Hann fær 124.053 kr. á mánuði í lífeyri frá TR og í viðbót fær hann heimilisuppbót upp á 31.348 kr., eða samtals 155.000 kr. Og þetta er í boði ríkisstjórnarinnar. Þótt hann hafi 570.000 úr lífeyrissjóði, 1 milljón í atvinnutekjur eða samtals 1,5 milljónir í tekjur, fær hann 155.000 kr. frá ríkinu.

Í umræðu um mál Flokks fólksins um að hætt verði að skerða atvinnutekjur eldri borgara sagði ráðherra að það myndi opna á meira fyrir þá ríku. En hann er búinn að opna á meira fyrir þá ríku. Ef einhver er með 1 kr. undir 248.000 kr., sem flestir landsmenn eru með, fær hann ekki krónu. Ein króna tekur 155.000 kr. frá þeim sem mest þurfa á því að halda. Á sama tíma er 70.000 króna lífeyrissjóður 0 hjá flestum sem fá greitt úr lífeyrissjóði, öryrkjum og öðrum, sem að stærstum hluta eru konur. Er þetta ykkar réttlæti? Hvernig ætlið þið að breyta þessu?