149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi orðið var við að fylgjendur þessa orkupakka hafi eitthvað tjáð sig eða rannsakað norsku fyrirvarana. Þingmaðurinn getur þess í fyrsta lagi að ekki sé búið að leiða þá lög í Noregi og í öðru lagi að Evrópusambandið hafi ekki svarað óskum eða hugmyndum Norðmanna um þessa fyrirvara.

Hitt er svo vitanlega áhugavert að sjá að enginn af stjórnarþingmönnum virðist hafa áhyggjur af því að fjórði orkupakkinn er, að því er virðist, kominn í hús. Ég held að ég hafi séð á netinu, um það leyti sem ég stóð hér upp, frétt frá Evrópusambandinu um að búið væri að fara yfir allar átta gerðir fjórða orkupakkans og samþykkja að ganga frá þeim. Í nótt taldist mér til að fjórar væru eftir en það er sem sagt búið að ganga frá þessu ef ég hef verið á réttri blaðsíðu þar.

Ég ætla líka að vitna í álit Samtaka iðnaðarins varðandi orkupakka þrjú. Þau samtök gera svo sem ekkert mjög mikið úr orkupakka þrjú. Það má lesa í gegnum það álit og annarra að einfaldlega sé um að ræða meiri markaðsvæðingu og áframhaldandi markaðsvæðingu orkunnar. Það er svolítið sérstakt að sjá hvernig ákveðinn stjórnarflokkur stendur að því. Hitt er að samtökin virðist hafa fengið góða kynningu á þessum fjórða orkupakka. Er ekki full ástæða til þess að horfa á þriðja og fjórða orkupakkann sem eina heild og velta því fyrir sér hvort við þurfum varanlega fyrirvara á þeim nótum sem Norðmenn hafa óskað eftir, en hafa þá varanlegar undanþágur frá orkupakkanum sem slíkum? Þarf ekki að horfa á málið heildstætt þar sem við höfum tækifæri til að að horfa á heildina og sjá hver áhrif þriðja og fjórða orkupakkans eru samanlagt?