149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Nú vill svo skemmtilega til að bæði í salnum og hér í kring eru nokkrir fylgjendur þessa þriðja orkupakka. Nú er spurning að skora á fólk að upplýsa okkur hin um hvort kynningin sem þau hljóta hafa fengið um fjórða orkupakkann sé þess eðlis að þau hafi engar áhyggjur af því að stíga það skref að innleiða þetta allt á einu bretti — það sést nú reyndar undir iljarnar á nokkrum.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í þennan norska fyrirvara sem hann fer réttilega yfir hér. Þar segir að þjóðleg og samfélagsleg stjórn skuli vera yfir vatnsorkuauðlindunum. Eftir því sem við vitum best hefur þetta ekki enn verið leitt í lög í Noregi. Eftir því sem við vitum best hefur Evrópusambandið í raun ekki svarað eða Norðmenn fengið svör við því hvort unnt sé að aðlaga, ef ég má orða það þannig, eða veita þessa fyrirvara. Getum þingmaðurinn upplýst eitthvað nánar um það?