149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur inn á atriði sem ég leitaðist við að útskýra fyrir hæstv. fjármálaráðherra í andsvari áðan og hæstv. ráðherra virtist misskilja fullkomlega. Ég reyndi einmitt að benda á þá staðreynd að jafnvel þótt Noregur sé þegar tengdur við þennan sameiginlega evrópska raforkumarkað telja Norðmenn sig þurfa sérstakan lögformlegan fyrirvara til að koma í veg fyrir að Evrópusambandið geti sjálft einfaldlega ákveðið að bæta við tengingu. Þar er um að ræða land sem þegar er tengt en ekki, eins og í tilviki Íslands, land sem yrði þá nýr markaður og ættu þar af leiðandi að vera sterkari rök og meiri hvatar fyrir Evrópusambandið til að tengja við. Jafnvel land sem þegar er tengt telur sig þurfa að fá undanþágu til að komast hjá því að Evrópusambandið hlutist til um það að bæta við tengingum. Þessi fyrirvari Norðmanna hlýtur að vera aðvörunarorð til okkar, enda liggur fyrir að markmiðið með þessum þriðja orkupakka er ekki hvað síst og alveg sérstaklega að koma á nýjum tengingum.

Þarna hafa Norðmenn greinilega áhyggjur af því að svo spenntir séu menn fyrir því að tengja að þeir þurfi meira að segja að fá undanþágu til að koma í veg fyrir fjölgun tenginga á meðan tenging við Ísland er eitt af þessum forgangsverkefnum sem geta hugsanlega notið efnahagslegs stuðnings frá Evrópusambandinu og eftirlits af hálfu ACER, hvort sem það væri beint eftirlit eða með ESA sem millilið, sem er í rauninni þá nákvæmlega sami hluturinn og fellur varla að tveggja stoða kerfinu.