149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í gegnum tíðina hef ég hlustað mjög oft á hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, og stundum verið honum sammála og stundum ekki. Mig rekur minni til þess að hann hafi sagt að embættismannaveldið væri orðið of stórt og ríkjandi í íslensku samfélagi sem annars staðar og það væri farið að ganga á pólitíska ábyrgð lýðræðislega kjörinna fulltrúa, og það má í sjálfu sér taka undir það. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki svolítið ankannalegt að krefjast þess núna að málið fari aftur til embættismanna eftir eina umfangsmestu umfjöllun þingsins, lýðræðislega umfjöllun þingsins. Það var farið vel í gegnum málið í hv. utanríkismálanefnd og í hv. atvinnuveganefnd, það hefur verið ítarlega rætt og krufið og öllum spurningum hefur verið svarað. Ég gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að taka sér ár í að fara yfir málið. Mér fannst hún vera að draga málið allt of lengi. En gott og vel, hún fór í það til að vinna málið betur svo að við, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, gætum raunverulega tekið afstöðu til þessa máls. Ég spyr því: Er ekki skynsamlegra að mati hv. þingmanns, til þess að efla lýðræðislega kjörna fulltrúa og ýta undir þeirra pólitísku ábyrgð — á endanum munum við í þessum sal greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu og eigin samvisku — að við afgreiðum málið hér í stað þess að senda það til sameiginlegu EES-nefndarinnar, embættismannanefndarinnar, sem er búin að fá málið til sín einu sinni og hefur farið yfir það? Eigum við að senda það aftur til embættismanna í stað þess að veita lýðræðislega kjörnum fulltrúum á þingi, alþingismönnum í elsta þingi í heimi, tækifæri til að greiða atkvæði um málið?

Þetta er að mínu mati ekki mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér eru 50 þingmenn sem eru reiðubúnir að greiða atkvæði um málið, fylgja pólitískri sannfæringu, reyna að standa undir sinni pólitísku ábyrgð. Er ekki heiðarlegra að veita okkur tækifæri (Forseti hringir.) til þess í stað þess að þæfa málið svo að það fari í hendur embættismanna?