149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir áhyggjur mínar af vexti og valdi kerfisins á kostnað lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Mér dettur ekki í hug að kalla hv. þingmann popúlista þrátt fyrir að hún sé þessarar skoðunar.

En hvað varðar afgreiðslu þessa máls er ég alls ekki sammála hv. þingmanni um að það hafi fengið eðlilega og góða afgreiðslu á þinginu í ljósi þess að það sem kom út úr þessari undirbúningsvinnu ríkisstjórnarinnar var — hvað? Einhverjir ímyndaðir fyrirvarar sem ekkert hald er í, lofsverðar blekkingar svo að vitnað sé í Þorstein Pálsson. Það er afraksturinn, fyrirvarar til heimabrúks með það að markmiði að fá þingmenn til að segja bara já og vera ekki að spyrja raunverulegra gagnrýninna spurninga eins og við Miðflokksmenn höfum leitast við að gera hér í umræðunni.

Ég er nefnilega ekkert alveg viss um að það sé rétt hjá hv. þingmanni að allir muni greiða atkvæði um þetta mál samkvæmt samvisku sinni miðað við fyrri yfirlýsingar margra þingmanna um þetta mál. Ég er reyndar algjörlega sannfærður um að hv. þingmaður muni greiða atkvæði um þetta mál samkvæmt eigin sannfæringu og að sjálfsögðu má þessi góði hv. þingmaður vera þeirrar skoðunar en það breytir ekki því að við þurfum, áður en við innleiðum þetta allt saman í íslensk lög, að meta hvort þetta standist raunverulega stjórnarskrá og hvort þetta sé til þess fallið að veikja verulega íslenska hagsmuni í einu mesta grundvallarhagsmunamáli þjóðarinnar.