149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður fær það út að ég vilji setja málið í hendur embættismanna. Þá þarf kannski að taka fram að ég er ekki á móti tilveru embættismanna yfir höfuð. Þeir gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í lýðræðislega fyrirkomulaginu en það eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem eiga að ráða för og þess vegna eiga lýðræðislega kjörnir fulltrúar að gera það sem er skynsamlegt í þessari stöðu nú og fela embættismönnum að fara með málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar með það að markmiði að fá þar fram undanþágur, undanþágur sem eitthvert hald er í, í stað þess að skilja það eftir í höndunum á embættismönnum í Evrópusambandinu að túlka hvaða fyrirvara Íslendingar raunverulega hafi, ef þá einhverja. Við eigum að nýta embættismannakerfið en því á að vera stjórnað af lýðræðislega kjörnum fulltrúum til að ná hinni réttu lýðræðislegu niðurstöðu.