149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Það sem ég er að skoða eru upplýsingar sem ég var að finna á netinu. Þar kemur fram að Evrópusambandið hafi klárað svokallaðan orkupakka fjögur og ég fagna því að sjálfsögðu óskaplega mikið. Við höfum svo sem fengið veður af því að orkupakki fjögur sé búinn að vera ljós í einhvern tíma hér á landi og búið að fylgjast með honum allt frá árinu 2016. Hins vegar er áhugavert að velta því upp sem ég kem vonandi að síðar í dag þegar ég næ að lesa í gegnum þetta sem var að berast og var að klárast hjá Evrópusambandinu. Þar er m.a. talað um að í þessum fjórða orkupakka sé verið að auka á hlutverk þessarar svokölluðu ACER-stofnunar. Maður veltir þá fyrir sér hvort ekki sé rétt að fylgjendur þessa orkupakka komi í ræðustól og upplýsi okkur um hvað er í þessum orkupakka fjögur sem þeir telja svona snjallt. Hann er beint framhald af þeim þriðja. Ég hvet þá þingmenn sem hafa tjáð sig í blöðum og kannski annars staðar en hér í ræðustól um þennan orkupakka og hversu vitlaus við hin erum hér að vera á móti þessu að koma hingað og svara þeim spurningum sem við höfum borið upp.

Ég spyr stjórnarmeirihlutann og aðra fylgjendur þessa máls: Hafa þeir fengið kynningu á fjórða orkupakkanum sem hefur formlega litið dagsins ljós? Ég á síður von á að fá svör við þessu en mun halda áfram að kalla eftir þeim. Málið sem við fjöllum um hér í dag er að sjálfsögðu risamál, fyrst og fremst að mínu viti fyrir það að við erum að taka enn eitt skrefið í þá átt að samræma eða aðlagast hinum evrópska orkumarkaði. Það má vera að við höfum gert þau mistök fyrir einhverjum árum að hefja þessa innleiðingu og þessa vegferð. Það er samt ekki of seint að átta sig á hlutunum og segja: Heyrðu, þetta er orðið gott, við getum ekki tekið næstu skref. Orkupakki þrjú er klárlega skref í þá átt að samræmingin sem Evrópusambandið telur svo mikilvæga verði þróuð enn þá frekar með því að innleiða þennan orkupakka.

Ég tel mikilvægt að umræðunni um þetta mál verði frestað sé það þannig að fylgjendur orkupakkans hafi ekki fengið kynningu á því hvað felst í fjórða orkupakkanum vegna þess að stígi þeir það skref að samþykkja þessa tillögu utanríkisráðherra eru þessir ágætu þingmenn að segja að við munum liðka fyrir því að orkupakki fjögur verði innleiddur líka. Ég hef enga trú á því að þeir sem eru fylgjandi þessu núna og vilja ekki nýta þann lagalega rétt sem við höfum að vísa þessu til sameiginlegu EES-nefndarinnar muni hafa þor til þess þegar og ef eitthvað í fjórða orkupakkanum er þess efnis að þörf sé á því.

En þetta er mál þessara þingmanna, við getum ekki neytt þá til þess að kynna sér fjórða orkupakkann eða það sem þar bíður. Þó er hægt að ætlast til þess að það sé gert í ljósi þess að asinn er svona mikill. Ef þessir ágætu þingmenn eru ekki á þessum tímapunkti tilbúnir að vísa málinu í þennan lögformlegan farveg samkvæmt EES-samningnum er alltaf varaleiðin eftir og það er einfaldlega að fresta málinu og leggjast yfir hvað heildarmyndin af pakka þrjú eða fjögur þýðir fyrir Ísland.