149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Ég vil gera að umtalsefni ummæli sem féllu fyrir skemmstu í þingsal af hálfu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, þar sem hún gerði athugasemd við að fjallað væri um þetta mál hér og að ekki fengist tækifæri til að greiða um það atkvæði. Hún telur greinilega að það séu einir 50 hér sem vilja samþykkja þetta mál, svo hraksmánarlega illa sem það hefur verið undirbúið með allsendis ófullnægjandi umfjöllun í nefndum, þvert á það sem haldið hefur verið fram, líka í blaðagreinum. Það vantar mjög mikið inn í þetta mál. Það vantar náttúrlega greiningu á þeim lögfræðilega fyrirvara sem á að bera málið uppi. Það vantar greiningu á því sem bíður handan við hornið og fjórða orkupakkanum og meta þennan þriðja orkupakka í samhengi við hann. Það vantar að meta reynslu Norðmanna af þeim átta fyrirvörum sem Verkamannaflokkurinn þar í landi beitti sér fyrir. Það virtist mega skilja hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á þann veg að hún tefldi saman því að hér ætti að taka pólitíska ákvörðun á Alþingi og svo hinu að það ætti að vísa málinu í hendur embættismanna í Brussel í sameiginlegu EES-nefndinni. Það er einmitt ákvörðun um að fela þeim embættismönnum sem þar starfa, á grundvelli stjórnmálalegra viðhorfa, á grundvelli pólitískrar ákvörðunar, það hvernig á að halda á málinu, nákvæmlega með því að fara þess á leit að þær gerðir þessa orkupakka, sem ekki eiga við hérna vegna þess að við erum ótengd við orkukerfi Evrópu, verði felldar út úr þessum pakka hvað okkur snertir.