149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það kemur ekkert á óvart að einn af formönnum samfylkingarflokkanna allra skuli tala svona. Það er hins vegar mikill misskilningur að embættismenn fari með slíkt vald, þeir fylgja einfaldlega þeirri leiðbeiningu sem stjórnmálamennirnir veita þeim og gefa. Það er þeirra hlutverk og þannig eiga þeir að vinna. Ég held að þeir geri það líka langflestir. Mín reynsla af þeim er að þetta er harðduglegt fólk sem reynir alltaf að skila sínu.

Embættismenn þurfa hins vegar skýra leiðsögn og ef leiðsögnin frá stjórnmálamönnum, eins og hv. formanni Viðreisnar virðist vera, er að segja: Þið takið ákvörðun, kæru embættismenn, eða þið eigið að bera ábyrgð á þessu, þið eigið að taka ákvörðun um hvort við förum þennan veg eða ekki, er nú illa komið fyrir okkur og þá er svona stjórnmálaflokkur óþarfur. Ég held reyndar að Viðreisn sé óþarfur flokkur, það er nóg að hafa einn samfylkingarflokk á þingi. Hins vegar er mikilvægt að við sem trúum því enn að stjórnmálamenn eigi að stýra og marka stefnu og fylgja henni eftir höldum því á lofti að skilaboðin séu skýr. Það er alltaf það besta.

Í þessu máli er að mínu viti í fyrsta lagi hægt að vísa þessu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem er hið lögformlega og eina rétta og fá undanþágur frá þessu öllu saman. Því hefur verið hafnað hingað til, við verðum að átta okkur á að það er búið að hafna því að við fáum undanþágur en núna er málið komið á þennan stað og ljóst að það eru miklar deilur um málið í íslensku samfélagi.

Ef yfir 60% þjóðarinnar eru á móti því að innleiða orkupakkann er rétt að staldra við og fara með þau rök m.a. inn í sameiginlegu EES-nefndina og segja: Heyrðu, stjórnmálin á Íslandi segja að ekki sé hægt að gera þetta með þessum hætti. Við þurfum þær undanþágur sem við höfum óskað eftir. Ef menn vilja ekki fara í þann farveg þarf að fresta málinu, reyna að skýra það betur og afla meiri stuðnings og sáttar við það meðal þings og þjóðar.