149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé nákvæmlega það sem við erum að beita okkur fyrir hér, að embættismönnum, sem starfa í þágu Íslands í Brussel og reka okkar erindi þar á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, verði falið það verkefni að taka upp viðræður í nefndinni á grundvelli ákvæða samningsins sjálfs þar sem m.a. er fjallað um sáttameðferð. Það styrkir að sjálfsögðu málið að fyrir liggur sameiginlega yfirlýsing af hálfu orkumálastjóra Evrópu, embættismannsins Miguels sem svo hefur verið vísað til hér annars vegar, og síðan liggur fyrir sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna sem lögð var fram á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar 8. maí sl. Það styrkir málið og gerir það líklegra og vænlegra til árangurs en e.t.v. á fyrri stigum að þessar yfirlýsingar liggja fyrir.

Þess vegna ætti að vera óhætt að fara þessa leið og þess vegna er ekki mikið gefandi fyrir þær yfirlýsingar sem hér hefur nokkuð borið á í málinu, þær eru órökstuddar og engin þeirra hefur fengið minnstu stoð í umræðum, að málaleitan af okkar hálfu af þessu tagi, á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, myndi setja aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu í einhvers konar uppnám.

Svo geta menn dundað sér við að skrifa heimastíla og birta í blöðum landsmanna um að við viljum hafa hér áfram opið, frjálst og alþjóðlegt samfélag — eins og það sé undir í málinu. Við Íslendingar erum þátttakendur og jafnvel meðal stofnenda mikilvægra alþjóðlegra stofnana og íslenska þjóðin hefur glöggan skilning á mikilvægi frjálsra viðskipta. Sú spurning er bara ekki undir í þessu máli hvort við séum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag, eins og það er orðað — við erum það — heldur einfaldlega það hvort við ætlum að gæta hagsmuna þjóðarinnar í orkumálum, gagnvart orkuauðlindum sínum, vegna barna okkar, (Forseti hringir.) barnabarna og óborinna kynslóða.