149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir ræðuna. Hann tæpti á nokkrum hlutum. En fyrst langar mig að minnast á þá umræðu sem fór fram hér áðan um að við nýttum okkur ekki okkar pólitísku stöðu, heldur ætluðum við allt í einu að segja núna að embættismenn ættu að ráða þessu. Það er einmitt ekki það sem við erum að gera. Við erum einmitt að segja að við viljum núna taka þá pólitísku ákvörðun að senda orkupakka þrjú aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar til þess að taka þá stöðu sem upp kann að koma, sem við vitum jafnvel að mun koma upp.

Það verður aldrei nógu oft sagt að 23. september næstkomandi verður lagt fram fyrir stjórnlagadómstól í Noregi mál gegn ríkinu þar sem talið er að það hafi ekki farið rétta lagalega leið með sinn pakka.

Það er annað sem ég hjó eftir. Hv. þingmaður talaði um að nú væri kominn fram orkupakki fjögur. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé eitthvað í honum sem hv. þingmaður hafi séð sem gæti gagnast okkur. Við vitum núna að í orkupakka þrjú er aðallega verið að huga að markaðsvæðingu orku og að líta á hana sem vöru. Þá er einnig verið að tala um orkuauðlindir okkar sem vöru. Ég velti fyrir mér hvað sé að frétta af þessum fjórða pakka.