149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er nefnilega góð spurning; hvað er að frétta af þessum fjórða orkupakka? Það virðist nú vera þannig að flestir aðrir en þingmenn hafi fengið einhverjar fréttir eða útskýringar og kynningar á því hvað er í þessum fjórða orkupakka. Á vefsíðu Evrópusambandsins í dag er ný tilkynning þar sem fjallað er um fjórða orkupakkann. Þar er m.a. fjallað um breytingar á ACER-stofnuninni. Hvað tekur við? Auðvitað er þetta ekki nákvæmlega útlistað allt saman þarna, en þó er sagt frá því að verið sé að breyta eða bæta við heimildir og skýra heimildir þessara stofnana.

Ég held að það sé mikill ábyrgðarhluti hjá þeim sem eru fylgjandi því að innleiða orkupakkann núna að staldra ekki við og þiggja í rauninni það sem hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar-, ferðamála- og nú dómsmálaráðherra sagði, að líklega væri réttast að fresta þessu til haustsins vegna þess að það gæfi fræðimönnum og okkur og fleirum tækifæri til að kafa ofan í það hvernig orkupakki þrjú og fjögur eru samtvinnaðir. Því að þetta er ekki þannig að orkupakki þrjú standi sjálfstætt án þess að við þurfum að horfa til þess fjórða, ekki frekar en við þurftum að horfa til orkupakka tvö þegar farið var að vinna með þrjú.

Það er m.a. tekið fram í þessum upplýsingum frá Evrópusambandinu að ACER-stofnunin hafði einmitt verið sett á fót með þriðja orkupakkanum. Þar af leiðandi er þessi tenging svo augljós að þegar verið er að fjalla um breytingar á orkumarkaðnum, breytingar á þessari stofnun, breytingar á skipulagi orkumála Evrópu, sem við erum að fara að innleiða hér, verði vilji meiri hlutans að veruleika, er nauðsynlegt að vita hvað fleira felst í þessum málum öllum saman.