149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni að það er mjög upplýsandi að lesa greinar í blöðum landsmanna. Það er mjög virðingarvert þegar þingmenn sem eru að búa sig undir að styðja hérna mjög erfitt og vandasamt mál geri grein fyrir afstöðu sinni á síðum blaðanna. Ég tek sömuleiðis undir með hv. þingmanni að það væri mjög ákjósanlegt og eftirsóknarvert að þeir hinir sömu hv. þingmenn gæfu kost á samtali í þingsal um efni þeirra greina.

Það eru til að mynda tvær ágætar greinar sem hafa birst undanfarna daga, grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, okkar góða þingforseta hér í svipinn, í gær í Morgunblaðinu og grein hv. þm. Vilhjálms Árnasonar í Fréttablaðinu í dag. Það er margt líkt með þeim greinum og ég ætla að leyfa mér að nefna kannski tvö, þrjú atriði. Það er mikil áhersla lögð á neytendavernd. Ég hafði tækifæri til þess í annarri hvorri nefndinni sem um þessi mál hefur fjallað, ég man ekki hvort það var í utanríkismálanefnd þar sem ég hef setið nokkra fundi eða í atvinnuveganefnd þar sem ég á fast sæti, þar sem ég innti kunnáttumann eftir því hvað það væri varðandi neytendavernd og fékk þau svör að það væri helst sem á skorti í þeim málaflokki að það væri meiri málshraði hjá einhverri kærunefnd sem er starfandi á þessum vettvangi.

Síðan eru fullyrðingar um, eða a.m.k. orð látin falla í þá átt, að búast megi við lægra verði á raforku í framhaldinu. Það gengur náttúrlega þvert gegn flestum viðurkenndum sjónarmiðum (Forseti hringir.) í þessu máli. En ég fæ kannski tækifæri til að ræða þetta örlítið nánar í seinna andsvari.