149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það styrkir alltaf málflutning þegar hægt er að bregða tölum á svona hluti. Hv. þingmaður teflir fram tölum um fjölda heimila sem hafa skipt um raforkufyrirtæki, svona eins og við skiptum um banka eða tryggingafélag, en þegar þingmaðurinn er kominn með töluna 0,3% þá er til önnur leið til að orða það, þetta eru 3‰, þannig að það eru kannski ekki mjög mikil umsvif í þessu. Það hefur hins vegar ekkert komið fram um það að hér skorti neitt á neytendavernd í þessum efnum og þaðan af síður hefur það komið fram að við þurfum að afsala okkur forræði, a.m.k. að einhverju marki, eins og rakið er í greinargerð þeirra félaganna Friðriks Árna og Stefáns Más, forræði sem lýtur að skipulagi, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Mér finnst það varla vera tilvinnandi fyrir aukna neytendavernd að taka svo afdrifaríka ákvörðun þegar ekki hefur heldur verið sýnt fram á að á neytendavernd skorti í einhverjum verulegum mæli.

Lægra verðið sem er þarna boðað stenst tæpast skoðun í ljósi þess að markmið EES-samningsins er samræming á markaði og lykilorðið er einsleitni, mjög þýðingarmikið orð í þessum samningi. Samræming og einsleitni þýðir að hið tiltölulega lága verð sem ríkir hér á landi og er mörgum öfundsefni er líklegt til að hækka til samræmis við það sem gengur og gerist. Fullyrðingar í blaðagreinum, svo góðar sem þær kunna að vera og vandaðar um hið gagnstæða, fá auðvitað ekki staðist.