149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég fór sl. nótt nokkuð yfir virkjanasögu landsins og leitaðist við að sýna fram á tengsl við uppbyggingarsögu á fleiri sviðum samfélagsins. Þar nefndi ég atvinnuuppbyggingu í landinu og þá staðreynd að alla lýðveldissöguna hefur atvinnuástand verið næsta gott og við einungis þurft að kljást við atvinnuleysi um skamma hríð á þessu tímabili.

Einnig nefndi ég framfarir sem hefðu haldist í hendur við uppbyggingu raforkukerfisins og þar á ég sérstaklega við tæknilegar framfarir sem hafa orðið á þessum tíma og þá staðreynd að Íslendingar hafa alla lýðveldissöguna verið mjög framarlega um allar tækninýjungar á flestum sviðum. Að þetta sé einber tilviljun, frú forseti, held ég að sé ekki fullkomlega rétt sýn á málin, heldur fremur að hvort styðji annað í þessu efni og að uppbygging virkjana og dreifikerfisins ásamt þeim stóriðjum sem hér hafa byggst upp samhliða hafi valdið því að atvinnulífið hafi haft mikinn stuðning af því hversu framarlega við höfum skipað okkur í raforkumálunum.

Þá er ónefnd sú tenging sem þessar framfarir og uppbygging hefur við byggðaþróun í landinu og get ég þannig sagt að með þessari uppbyggingu hafi stjórnvöld í raun framkvæmt árangursríkari byggðastefnu en viðhöfð hefur verið með alls kyns vanhugsuðum innspýtingum fjármagns í atvinnugreinar sem áttu að lyfta atvinnulífi í byggðum landsins en lifðu svo varla vikuna út um leið og litið er til fortíðar, til sögunnar, og leitast við að læra af henni til þess einmitt að taka eins vel ígrundaðar ákvarðanir og unnt er í samtímanum til heilla fyrir framtíðina, komandi kynslóðir, og reyna að loka engum möguleikum þeirra sem taka við landinu úr okkar höndum.

Frú forseti. Þess vegna er svo mikilvægt að stór og afdrifarík mál eins og við erum hér að ræða fái eins mikla umræðu og skoðun og unnt er og er ég að vísa til þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins. Við eigum alls ekki að hika við að taka umræðuna lengra ef ekki er búið að sannfæra þjóðina um ágæti þess sem fyrirhugað er að gera. En það er einmitt það sem stjórnarliðar og þeirra fylgitungl eru að gera í þessu máli, segja að málið sé útrætt og skella skollaeyrum við öllum ábendingum um að tiltekna hluti þurfi að skoða betur. Nefni ég hér einungis spurningar okkar um lagalega fyrirvarann sem sagt var að ætti að gera það óhætt að samþykkja þetta mál en fyrirfinnst svo hvergi. Fyrirvarinn er í besta falli falleg ummæli um sérstöðu Íslands í þessu máli, frú forseti.

Mesta furðu vekur þó afstaða stjórnarandstöðuflokkanna. Þannig virtust Samfylkingin og Viðreisn ekki þurfa neitt að íhuga innihald regluverksins heldur samþykktu orkupakkann óséðan. Hvað þeim gekk til með því að flýta sér svo að taka afstöðu til málsins er þeirra að svara en vekur auðvitað undrun. Þegar málið kemur síðan til umræðu í þingsal virka allir þessir stjórnmálaflokkar sem hluti af stjórnarliðinu og hafa ekki uppi neina gagnrýni í málinu.

Frú forseti. Eftir að hafa farið yfir virkjanasögu landsins hafði ég hugsað mér að líta til framtíðar. Það fyrsta sem verður þar til skoðunar er auðvitað framhald þessa máls. Eftir samþykkt þessarar tilskipunar, ef það verður raunin, er von á þeim næsta á sviði orkumála frá Evrópusambandinu og er þar átt við fjórða orkupakkann. Því er ekki úr vegi að velta honum fyrir sér og skoða, þótt ekki væri nema hvort með samþykkt þessa pakka, þriðja orkupakkans, séum við að einhverju leyti búin að skuldbinda okkur hvað varðar fjórða orkupakkann. Ef svo er, frú forseti, er betra að staldra við áður en lengra er haldið.

En hvað ber svo við? Fjórði orkupakkinn er ekki hluti af gögnum þessa máls og eru þau þó mjög viðamikil. Fjórða orkupakkann er ekki að finna þarna. Samt heyrir maður sögur um að fjórða orkupakkann sé að finna (Forseti hringir.) í Stjórnarráðinu og sé þar til skoðunar en honum er ekki dreift meðal þingmanna til að taka einmitt afstöðu til þessa máls.