149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni hans ágætu ræðu. Það er sjálfsagt mál að taka undir með þingmanninum um að nauðsynlegt er að málið fái miklu meiri umræðu, miklu meiri skoðun, miklu meiri rannsókn, miklu meiri rýni. Það er sjálfsagt og eðlilegt í ljósi þess hversu mikið hagsmunamál þjóðarinnar er hér undir.

Hv. þingmaður vakti máls á því að a.m.k. tveir stjórnarandstöðuflokkar lýstu yfir stuðningi við málið áður en það var lagt fram á Alþingi. Þeir samþykktu þennan orkupakka óséðan og þess vegna er ekki skrýtið að þeir aðilar skuli koma hér og kvarta undan þessari umræðu og telji hana allt of mikla og þá skoðun sem hefur farið fram í nefndum allt of viðamikla vegna þess að þeir töldu sig ekki þurfa að skoða málið nokkurn skapaðan hlut.

Hér skilur náttúrlega mjög á milli Samfylkingarinnar og systurflokksins í Noregi, Verkamannaflokksins, sem beitti sér af hörku í málinu og krafðist þess að það yrðu settir ekki færri en átta fyrirvarar þar í landi. Þannig að hér hafa orðið, eins og reyndar í fleiri málum, afar skörp skil á milli Samfylkingarinnar og a.m.k. norska jafnaðarmannaflokksins og reyndar jafnaðarmannaflokka í fleiri norrænum ríkjum. Spurning hvort ekki liggi beinast við að Samfylkingin leiti ásjár hjá Píratasöfnuðinum úr því sem komið er.