149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, svo virðist vera að margir þeirra stjórnarandstöðuflokka sem eru hér á þingi, þeir eru nú líklega fimm, að sumir þeirra, ég nefndi tvo, þ.e. Viðreisn og Samfylkinguna, tóku mjög fljótt afstöðu til málsins. Það liggur alveg fyrir. Það hefur valdið því, sem er auðvitað slæmt fyrir lýðræðið, að inni á Alþingi verður umræðan þeim mun minni eftir því sem færri taka þátt í henni, að sjálfsögðu. Það vekur auðvitað undrun að menn taki ekki þátt í umræðunni meira en raun ber vitni þegar um svona stórt hagsmunamál Íslendinga er að ræða, sem margir halda fram og ég held að sé rétt, að fjalli raunverulega um framtíð orkuauðlindanna. Við erum að stíga stórt skref inn í óvissa framtíð sem við vitum ekki gjörla hvert ber okkur og menn hafa ítrekað komið upp í ræðustól til að reyna að átta sig á því hvað getur orðið. Þess vegna ber að taka öllum ábendingum og aðfinnslum í þessu máli alvarlega og þess þá heldur að menn taki afstöðu til svo stórs máls gagnrýnislítið þegar það kemur fyrir þingið, þ.e. að taka ekki þátt í umræðunni.