149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur dregið geysilega vel fram hversu mikil tengsl eru milli atvinnuuppbyggingar í landinu og aukinnar velferðar og svo nýtingar orkunnar. Af því tilefni langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins út í fyrirvara norska Stórþingsins sem ég er rétt að byrja að ræða í mínum ræðum — já, og minnir mig á það, frú forseti, að ég tók eftir því að það virðist hafa gleymst hjá forseta, sem reyndar var þá í annarri mynd, að skrá mig á mælendaskrá eins og hann hafði lofað. Ég bið forseta að bæta úr því.

En það sem ég ætla að spyrja hv. þingmann út í eru tveir af fyrirvörum Norðmanna. Annar þeirra segir: Norsk endurnýjanleg orkuframleiðsla skal stuðla að aukinni verðmætasköpun og atvinnu í Noregi. Og hinn: Tekjur verða áfram notaðar til að lækka gjaldskrár.

Þarna er það alveg skýrt af hálfu norska þingsins að menn ætli áfram að beita því sem hefur gefist vel, annars vegar að nýta orkuna til að efla atvinnulíf í landinu og hins vegar til að bjóða fólki og fyrirtækjum upp á lægra orkuverð. Þetta gengur gegn því sem hér er verið að predika um einhvern ímyndaðan ávinning af því að fara í evrópskt samkeppnisumhverfi sem mun eingöngu leiða af sér verðhækkanir og draga úr möguleikum okkar á að beina orkunni í atvinnuuppbyggingu innan lands.

Því spyr ég hv. þingmann: Hvernig í ósköpunum stendur á því að íslensk stjórnvöld reyna ekki einu sinni að leggja fram fyrirvara eins og Norðmenn þó gera hvað varðar þessa þætti því að orkan hefur reynst okkur Íslendingum ekki síður (Forseti hringir.) mikilvæg en Norðmönnum í gegnum tíðina?