149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir spurningar hans. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að svo virðist sem fyrirvarar norska Stórþingsins séu mun ítarlegri og greinarbetri en þeir fyrirvarar sem hér eru kynntir. Ég þekki reyndar ekki hvernig þeir fyrirvarar eru lagalega bundnir í EES-samninginn, ég þekki það ekki. Ég geri þá ráð fyrir að norska Stórþingið hafi sett þetta sí innanlandslög í Noregi, eins og talað er um með fyrirvarann hér, og þá er náttúrlega ekki víst að sumir af þessum fyrirvörum muni standast þegar til kemur, bara alveg eins og við höfum rætt í þessu máli, að þeir muni ekki standast ef þeir fara í bága við regluverkið í Evrópu þegar búið er að innleiða.

Norðmenn eru búnir að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, þannig að allt þar innan lands sem fer í bága við regluverkið, þriðja orkupakkann, er náttúrlega einskis virði. En a.m.k. eru fyrirvarar Norðmanna, eftir því sem hv. þingmaður upplýsti hér áðan, ítarlegri en hérlendis og leiðbeinandi fyrir þá eins og þetta með að tekjur skuli lækka gjaldskrá. Það er góðra gjalda vert í Noregi ef auknar tekjur renni til þess að lækka gjaldskrá. Það væri auðvitað fagnaðarefni ef íslensk stjórnvöld settu lög að því leytinu til heldur en að vera með óljósa fyrirvara sem felast í yfirlýsingum eða einhverjum fundahöldum úti í Evrópu.