149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Getur forseti hlutast til um það að reyna að finna hæstv. utanríkisráðherra sem hefur eiginlega ekkert spurst til í þessari umræðu? Því hefur verið fleygt að hann sé í útlöndum, ég veit ekki hvort það er rétt, en það er þá sérkennilegt í ljósi þess að á fyrri stigum þessa máls setti hæstv. ráðherra sérstaklega út á það að ég væri í opinberum erindagjörðum á vegum þingsins í útlöndum, reyndar ásamt formanni utanríkismálanefndar sem hæstv. ráðherra virtist ekki sakna eins mikið, en þó hafði ráðherrann á sínum tíma beðið þingmenn Miðflokksins um að fá að mæla fyrr fyrir málinu til að komast til útlanda. Allt þetta var mjög sérkennilegt en þeim mun sérkennilegri er fjarvera hæstv. ráðherra núna því að við þingmenn höfum varpað hér fram fjölmörgum spurningum um eðli þessa máls og afstöðu stjórnvalda sem engin svör fást við af því að ráðherrann vantar.