149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég held að það sé skynsamlegt að hæstv. utanríkisráðherra komi hingað og verði til viðtals við okkur því að ekki gera það aðrir úr stjórnarmeirihlutanum. Það væri líka freistandi, bæði fyrir okkur þingmenn, sem höfum efasemdir og ég held trúlega líka forseta og fleiri sem vilja samþykkja þennan orkupakka, að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í það hvort hann hafi nú þegar fengið einhverjar vísbendingar um það að þegar orkupakki fjögur kemur til okkar — og ég ítreka að það er hægt að lesa töluvert um hann nú þegar á netinu — muni hann koma aftur til þings og biðja um afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara. Ég hefði áhuga á að vita hvort utanríkisráðherra væri búinn að fá einhverja slíka kynningu því að nú hefur málið greinilega verið skoðað af ráðuneytinu síðan 2016 í það minnsta og starfshópur starfandi nú þegar.