149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í ljósi þess að forseti hefur enn ekki brugðist við þessum ítrekuðu beiðnum verð ég að segja enn og aftur að ég tel mjög mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra verði kallaður hingað til að hann geti tekið þátt í þessari umræðu og skýrt málin fyrir okkur. Hæstv. ráðherra hafði miklar áhyggjur af því ef ég skyldi á sínum tíma, óbreyttur þingmaður, sem var þó með geysilega öflugan varaþingmann inni fyrir mig, missa eitthvað úr umræðunni á fyrri stigum en svo þegar umræðan er byrjuð fyrir alvöru og við erum komin hingað í síðari umr. og stendur til að fara að afgreiða málið, nái vilji stjórnarmeirihlutans fram að ganga, ætlar hæstv. ráðherra ekki að svara fyrir það.

Það getur ekki verið, frú forseti, að það sé ætlast til að við klárum þetta mál án þess að ráðherrann sem ber ábyrgð á því og lagði það fram svari fyrir það. Þá hlýtur að vera eðlilegt að við frestum umræðunni þar til hæstv. ráðherra getur tekið þátt í henni.