149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst mjög vel með umræðunni hér þær nætur og alla þá klukkutíma sem hún hefur farið fram, en ekkert nýtt hefur komið fram í henni. Það er kannski eitthvað nýtt fyrir þá hv. þingmenn sem hér eru inni sem þá átta sig á hlutunum og kynna sér málið. Við hin gerðum það bara fyrr og gerðum það í nefndarstarfi hv. utanríkismálanefndar. Þar fengum við svör og leituðum svara við öllum þessum spurningum, um álitsgerðir, um lagalega fyrirvara og annað slíkt. Því var öllu svarað í nefndinni og síðan var því svarað hér alla fyrstu klukkutíma umræðunnar þegar við tókum öll þátt í umræðunni.

En nú, þegar þetta er orðið eitthvert bandalag Miðflokksmanna um að ræða málin sín á milli og spyrja sig spurninga sem þau vita svörin við og spyrja spurninga sem þau hafa fyrir löngu fengið svör við, fylgist ég bara með á kantinum. (Gripið fram í.)