149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Þeim sem hér stendur er ljóst að formaður utanríkismálanefndar var viðstaddur upphaf umræðunnar og er löngu búin að taka umræðu inni í nefndinni, eins og hún segir sjálf. Það væri þá ekki úr vegi að hún leiddi okkur hina villuráfandi á rétta braut með því að segja okkur undan og ofan af því hvað gerðist í nefndinni, þeim okkar sem ekki erum svo lánsöm að sitja þar. En í næstu ræðum mínum hér mun ég rifja upp nokkuð af því sem fram hefur komið áður vegna þess að hér fara ekki bara fram umræður milli Miðflokksmanna, hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hér er fólk fyrir utan húsið sem fylgst hefur með þessari umræðu nætur og daga undanfarið og gerir enn. Þannig að við erum ekki að tala við hvert annað í góðsemi. Við erum að tala við fólk sem fylgist með þessari umræðu. Það eru væntanlega 62–63% þjóðarinnar sem eru á móti þessum gjörningi og hefur nefnilega borið á því að á þau er ekki hlustað.

Ég ætla að óska Sjálfstæðismönnum innilega til hamingju með 90 ára afmæli flokksins sem verður núna á laugardaginn kemur, ef ég þekki rétt, ég verð þá leiðréttur ef það er rangt, og ég held að það væri ekki úr vegi fyrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hyggjast taka þátt í kökupartíum hér og hvar um landið að vera þar vel undirbúnir til þess að svara félögum sínum sem eru að meiri hluta til á móti þessum gjörningi.

Það er ekki svo að ég ætli að gráta það að Sjálfstæðisflokkurinn sé með þessum gjörningi að skjóta sig í fótinn og stimpla sig inn sem svona um það bil 15% flokkur eða eitthvað svoleiðis, enda kemur mér það ekkert við, en ég myndi í allri góðsemd ráðleggja þessu góða fólki að vera vel búið þegar það mætir grasrótinni yfir rjómaköku og kaffi á laugardaginn. Og þar held ég að tímanum væri vel varið fyrir þetta góða fólk að fara kannski yfir nokkrar spurningar með því fólki sem ekki var gert hér við fyrri umr. og því síður á fundi hv. utanríkismálanefndar.

En það var ekki það sem ég ætlaði að ræða í þessari ræðu. Eins og við vitum eru nokkrir fyrrverandi stjórnmálamenn sem gjörþekkja innleiðingu bæði fyrsta og annars orkupakkans og hafa fylgst með þessum pakka hér. Þeir hafa sem sagt gefið út yfirlýsingar á margan hátt — ég sé að ég á ekki nema tvær mínútur eftir af tímanum þannig að ég verð að láta aðalatriði þess máls bíða næstu ræðu. Það fjallar einmitt um afstöðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem er þar staddur að hann kallar sinn gamla flokk Hreyfinguna – framboð vegna þess að sá flokkur sé hvorki vinstri né grænn lengur. Þannig slær þetta mál þann góða dreng.

Ég hef áður farið yfir það að einn sá þingmaður sem var, ef ég þekki rétt og verð þá leiðréttur, kannski mestur Evrópusinni þáverandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi hv. þm. Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra og síðar sendiherra, hefur einnig sett fram mörg varúðar- og varnaðarorð um innleiðingu þessarar gerðar. Þannig að þetta eru atriði sem þarf að fara yfir.

En ég mun í þeim ræðum sem ég mun flytja hér síðar í dag fara nokkuð yfir það sem hér hefur farið fram í skjóli nætur til þess að gera þeim kleift sem ekki vöktu með okkur, þótt þeir séu fjölmargir, að fylgjast með hvað það er sem við erum búin að vera að ræða hér og skiptir alla Íslendinga miklu máli.

Að því sögðu ætla ég að taka mér hlé en kem aftur með þau skilaboð sem ég boðaði áðan í næstu ræðu.