149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:41]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðu hans og hlakka til að heyra framhaldið á þeim ræðuflutningi eins og hann hefur boðað hér. Í framhaldi af umræðum sem hér urðu áðan um fundarstjórn forseta þar sem rætt var um nauðsyn þess að hér væru til svara aðilar sem bera ábyrgð á þessu orkupakkamáli, vil ég ítreka þá ósk að hv. formaður utanríkismálanefndar sé hér til svara varðandi ýmis atriði. Ég tel að hv. formaður utanríkismálanefndar geti ekki borið það fyrir sig að öllu hafi verið svarað og að allt séu rangfærslur og allt sé misskilningur og allt hvað heita má. Þetta er náttúrlega ekki boðlegur málflutningur.

Við fjöllum um mál sem er þannig vaxið að lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafa lýst því í ítarlegu áliti að þeir telji að með samþykkt þessa máls fái erlendir aðilar a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu á orkuauðlindum Íslendinga. Við erum að fjalla um þetta mál hér með hagsmuni barna okkar, barnabarna og óborinna kynslóða fyrir augum. Það er algerlega nauðsynlegt að hér séu til svara þeir sem bera ábyrgð á þessu máli.

Það er skiljanlegt að hv. þingmaður skuli vísa hér til háttvirts — hann er auðvitað háttvirtur og mikilsvirtur, Ögmundur Jónasson. Það er náttúrlega mjög merkilegt að fylgjast með því hvernig hann hefur fjallað um afstöðu síns gamla flokks sem hann þekkir greinilega ekki. Hann sér hann ekki lengur sem vinstri flokk. Hann sér hann ekki lengur sem grænan. Það minnir okkur á að það eru mjög stór mál sem eru undir í þessu orkupakkamáli sem lúta að náttúruvernd og umhverfisþáttum sem er ósvarað í þessu og við þurfum auðvitað að fjalla um það í framhaldinu.