149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega merkilegt að sjá hvernig einstakir stjórnmálaflokkar hafa breytt um ásýnd í vissum skilningi þegar kemur að þessu máli. Við höfum fjallað um það hér í orðaskiptum okkar, hv. þingmaður, hvernig gamalreyndur og mikils metinn, mikils virtur leiðtogi í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, áður Alþýðubandalaginu, Ögmundur Jónasson, virðist ekki þekkja sinn gamla flokk. Það er Sjálfstæðisfólk úti um allt land sem þekkir ekki sinn gamla flokk. Og ég öfunda ekki Sjálfstæðismenn að vera að fagna 90 ára afmæli flokksins við þessar aðstæður, að hann stendur hér grár fyrir járnum í því að vilja samþykkja mál sem að dómi færustu og bestu manna veitir erlendum aðilum a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu íslenskra auðlinda, náttúruauðlinda í eigu íslensku þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Einhvern tímann reis þessi flokkur undir nafni. En maður spyr: Gerir hann það nú, Sjálfstæðisflokkurinn?