149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi skrif ýmissa reyndra fyrrum stjórnmálamanna og það mætti reyndar tína til miklu fleiri því að stjórnmálamenn, alveg frá vinstri til hægri á litrófi íslenskra stjórnmála í gegnum tíðina, hafa eindregið varað við þessum orkupakka. Þar má nefna menn úr Alþýðubandalaginu, síðar Vinstri grænum, úr Alþýðuflokknum, síðar Samfylkingunni. Það má nefna Framsóknarmenn, nefna má Sjálfstæðismenn og jafnvel fleiri, allt þetta hefðbundna litróf stjórnmálanna, og um leið horfum við upp á það að mikill meiri hluti stuðningsmanna allra stjórnarflokkanna er eindregið andsnúinn þessu máli.

En þá vaknar spurningin þegar maður lítur á þetta tvennt: Í hvaða tómarúmi eða hvers konar rými eru þá núverandi ráðherrar og þingmenn þessara flokka, ef þeir ekki aðeins líta fram hjá því sem stuðningsmenn þeirra segja og hinir reyndari úr þessum flokkum, heldur gera beinlínis lítið úr þeim sem leyfa sér að lýsa efasemdum um þennan orkupakka og gagnrýna? Í hvers konar tómarúmi eða bergmálshelli, eða ég veit ekki hvað, er fólk? Hvernig getur hv. þingmaður skýrt það að þetta rof hafi átt sér stað og að því marki, eins og ég nefndi, að menn leyfa sér jafnvel á tíðum dónaskap gagnvart fólki sem geldur varhuga við þessum orkupakka? Aðvaranirnar berast úr öllum áttum, frá verkalýðshreyfingu, frá fólki sem reiðir sig á orku á samkeppnishæfu verði, frá útlöndum líka, frá Noregi. En það er eins og þessi hópur, þessi afmarkaði hópur þingmanna, sé ónæmur fyrir þessu og svari því oft og tíðum með hreinum skætingi.