149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef spurt hvers vegna ráðherrar og alþingismenn þessara ríkisstjórnarflokka hlusta ekki á sitt eigið fólk. Ég spyr: Af hverju finnst þeim svo léttvægt að 63% þeirra sem taka afstöðu í nýlegri skoðanakönnun um þetta mál eru alfarið á móti því? Ég spyr af hverju þessir ágætu félagar okkar láta sér detta það í hug að troða þessu máli í gegnum þingið, eins og þeir ætla að gera núna þó að það taki þá aðeins lengri tíma en upphaflega var áætlað, og niður í hálsmálið á kjósendum sínum. Hvað kemur þeim til?

Ég ætla að taka smáforskot á sæluna og lesa spurningu einmitt frá hv. fyrrverandi þingmanni, Ögmundi Jónassyni, þar sem hann spyr, með leyfi forseta:

„Er Alþingi og stofnanaheimur stjórnmálanna, þar með taldir meðvirkir fjölmiðlar, að verða viðskila við félagslegar rætur sínar? Er þingið komið úr kallfæri við þjóðina?“

Ekki alveg, hluti þjóðarinnar er hér úti á vellinum. Það eru margir sem hafa glott framan í þann sem hér stendur af því að þeim finnst eitthvað fáliðað, en það eru margar fjöldahreyfingar sem hafa byrjað í færri og minni hóp en hér er fyrir utan. Ég minni á að postularnir voru upphaflega 12, til dæmis. Ég skil ekki heldur þetta fálæti sem fulltrúar þessara flokka sýna kjósendum sínum. En auðvitað munu þá þeir sömu kjósendur sýna þessum flokkum sama fálætið í næstu kosningum.