149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvað það segir okkur að mati hv. þingmanns að viðvaranirnar út af þessu máli hafi komið frá reyndum stjórnmálamönnum úr svo ólíkum flokkum, því að í gegnum tíðina voru þessir menn sem vísað hefur verið til ekkert alltaf sammála. Ég hugsa að það hafi verið fá stór mál þar sem þeir voru allir samstiga, en þeir eru það svo sannarlega hér, jafnvel menn sem hafa verið Evrópusambandssinnar, ja, menn eins og sá sem stundum er kallaður faðir EES-samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, jafnvel þeir vara eindregið við því sem hér er um að vera.

Hvaða ályktun dregur hv. þingmaður af því að þessir gömlu andstæðingar, sem tókust oft hart á í pólitíkinni árum og áratugum saman skuli í þessu máli tala nánast sem einn maður?