149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:12]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég get vel tekið undir að það er ekkert óeðlilegt að Evrópusinnuðu flokkarnir á þingi geri allt sem í þeirra valdi stendur til að fá algjöra innlimun í Evrópusambandið, ef ég get notað það orð eða orðalag. En ég get algerlega tekið undir að mér finnst undarlegt að horfa á flokka eins og Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og svo Vinstri græna. Það er alveg furðulegt að þeir þrír flokkar hafi ekki það vit að bera að nýta sér þá lögformuðu leið að senda orkupakka þrjú í sáttaferli til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Segjum að það muni ekki ganga upp — nú ætla ég að nota orðið neyðarhemill, þá ætti það að vera þessum flokkum neyðarhemill að fresta málinu alla vega þar til búið er að úrskurða í Noregi 23. september næstkomandi. Við erum búin að bíða, ég held að enginn verði pirraðir út í okkur þótt við bíðum í nokkra mánuði og gera hlutina rétt, leggja út af reynslu annarra þjóða o.s.frv.