149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það verður ekki sagt að glæsibragur sé yfir Sjálfstæðisflokknum þegar hann fagnar nú 90 ára afmæli, flokkur sem hefur litið á sig og kynnt sig sem kjölfestu í íslenskum stjórnmálum. Af hálfu fræðimanna flokksins er kenning um að ef hans nýtur ekki við þá ríki glundroði, svokölluð glundroðakenning. Aðrir fræðimenn og að sumu leyti hinir sömu hafa uppi aðra kenningu, þ.e. að landsfundur Sjálfstæðisflokksins sé slík samkoma að jafna megi við þjóðfundi, þar séu í raun og sanni ráðið ráðum hins íslenska samfélags og þjóðfélags. Þetta hefur ítrekað komið fram í mjög hátimbruðum og hátignarlegum skrifum í því blaði sem eitt sinn var málgagn flokksins, Morgunblaðinu. Að það skuli koma í hlut þess flokks að ætla að standa að því hér og beita sér fyrir því af alefli að hér sé erlendum aðilum veitt íhlutun í orkuauðlindir þjóðarinnar sem lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar leggja nánast að jöfnu við að erlendum aðilum yrði falin ákvörðun um fiskveiðiafla á Íslandsmiðum. Þetta er þvílíkt hlutskipti að það hefur ekki nokkur maður getað séð það fyrir.

Framsóknarmaddaman, sú virðulega frú og á stundum tilkippileg í samstarf við aðra flokka, er núna ekki eins prúðbúin og stundum áður, þarf að skreyta sig með álímdum einhverjum höfuðtopp eða lokk.

Vinstri grænir, sem byggja á þjóðernissinnaðri kennd og landvörnum, skuli þegar þeir nú í fyrsta sinni (Forseti hringir.) stýra hér ríkisstjórn í lýðveldinu, (Forseti hringir.) bera ábyrgð (Forseti hringir.) á ríkisstjórnarforystu (Forseti hringir.) stjórnar sem ætlar er að (Forseti hringir.) veita erlendum aðilum þessi ítök (Forseti hringir.) í orkuauðlindir þjóðarinnar.

Hvaða orð má hafa um þetta, herra forseti?