149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það liggi þannig í þessu að væntanlega hefur meiri tíma verið eytt í að rýna álit ákveðinna manna og mögulega kvenna en annarra og meiri tíma eytt í að rýna þá niðurstöðu sem menn og konur vildu sjá en að rýna texta og efni sem varðaði það sem rétt væri, þ.e. hvað væri fært og það er þessi stjórnarskrárvandi. Þetta er alþekkt og til eru fræðikenningar um þetta í rökfræði þegar mönnum fatast fótur og þeir hengja sig á efnisatriði sem er niðurstaða máls og byggja allan sinn málflutning utan um það en leita ekki að rökum og komast að niðurstöðunni síðar eftir nákvæma könnun.

Ég mun kannski koma betur inn á það í nokkrum ræðum sem ég er með undirbúnar um það að rýna þann lagatexta sem liggur til grundvallar þeim álitum sem gefin hafa verið. Ég held að það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað þetta þýðir í raun þegar við þurfum að fara að vinna eftir þeirri niðurstöðu sem ákveðið var að hengja sig á: Já, við verðum að innleiða.