149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:34]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er alveg ljóst í mínum huga að einhvers konar flækjustig mun myndast af því að við erum að fara þessa leið. Við erum að tala um ályktun sem afléttir stjórnskipulegum fyrirvara eins og það kallast, síðan liggja fyrir okkur a.m.k. tvö lagafrumvörp, ef ég hef tekið rétt eftir. Segjum svo að það verði samþykkt, eða synjað og þá munu þessir stjórnskipulegu fyrirvarar falla úr gildi. Getur verið að þá þurfi málið í heild sinni að fara aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar? Ég tel þetta vera svo mikið flækjustig á svo einföldu máli að það er hreint með ólíkindum, þar sem við vitum að Norðmenn voru með átta fyrirvara. Við vitum að til þeirra hefur ekki verið tekið og þeir bíða niðurstöðu úr því. Þess vegna finnst mér að við eigum að læra af þeirri reynslu sem birtist í Noregi, og hvort það sé ekki best fyrir okkur á þessum tímapunkti að fá lögformlega leið í gegnum EES-nefndina þannig að við séum að gera hlutina rétt.