149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Fram kemur í umsögn Samtaka iðnaðarins við þessu orkupakkabrölti öllu að von sé á fjórða orkupakkanum og að hann sé öllu viðameiri eða víðtækari, ég man ekki hvort orðið er notað, en sá þriðji. Lesa má á milli línanna í umsögninni að samtökin telja ekki síður mikilvægt og jafnvel mikilvægara að gæta íslenskra hagsmuna þegar kemur að fjórða orkupakkanum.

Nú liggur fyrir að einhverjir í stjórnsýslunni, hagsmunasamtök, mögulega einhverjir þingmenn og ráðherrar, hafa upplýsingar um innihald fjórða orkupakkans. Maður veltir því þá fyrir sér, m.a. út af því sem Samtök iðnaðarins skrifa í umsögn sinni, hvort rétt sé að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara núna áður en við sjáum svart á hvítu hvað er í fjórða orkupakkanum, hvort ekki sé skynsamlegra að horfa á málið í heild, átta sig á því hvort fara þurfi í aðra vegferð með að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara þegar orkupakki fjögur kemur eða hvort niðurstaðan verði sú að þegar hinn víðtækari pakki kemur þurfi ekki að fara þessa leið fyrir þingið vegna þess að við verðum búin að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara í orkupakka þrjú. Getur verið að túlkunin verði sú að þetta sé þannig framkvæmd og þannig breyting að þess muni ekki þurfa, að þetta sé tæknileg breyting, eins og það er gjarnan orðað þegar verið er að bæta við reglur og slíkt?