149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að auglýsa eftir því hvar og hvernig því var svarað því að hér var líka óskað eftir að afmá Ísland af þessum svokallaða PCI-lista. Ég er með skýrslu eða yfirlit frá Evrópusambandinu síðan í mars sem heitir „Clean energy for all Europeans“, eða hrein orka fyrir alla Evrópubúa, þar sem Ísland reyndar sést ekki. En þar er snúra teiknuð inn á frá Skotlandi út á Atlantshafið og ég geri ráð fyrir að hún liggi ekki til Færeyja heldur til Íslands. Eða kannski liggur hún fram hjá á Íslandi? Ég veit það ekki. En gera má ráð fyrir að þetta sé tengingin við Ísland og þess vegna hlýtur stjórnarmeirihlutinn að hafa upplýsingar um hvernig standi á því að þetta sé enn þá þar inni.

Ég tók eftir öðru í dag á heimasíðu Evrópusambandsins. Enn þá er fjallað um þennan fjórða orkupakka eða þá stefnu þeirra sem þeir kalla hreina orku fyrir alla Evrópubúa og þar segir — og ég fæ ekki annað séð en að þetta sé nýtt, hafi komið fram í dag, ég hef samt fyrirvara á því að eitthvað hafi farið fram hjá mér — að Evrópusambandið hafi nú þegar afgreitt uppfærslu á orkustefnu sinni, umhverfi, eða rammanum, og hvernig eigi að komast frá því að nota jarðefnaeldsneyti í hreinni orku o.s.frv. Þessu plaggi er síðan skipt niður í nokkra hluta; orkunýtni bygginga, endurnýjun orku, orkuöryggi eða nýtni o.s.frv. Síðan er eitt í þessu öllu saman sem heitir „Electricity market design“. Með leyfi forseta, ég myndi leyfa mér að þýða það í rauninni sem virkni markaðarins eða hvernig markaðurinn á að virka. Þegar skoðað er nánar hvað þarna er átt við er ýmislegt sem kemur fram, m.a. er fjallað um uppfærslu á þessari svokölluðu ACER-stofnun.

Ég leyfði mér að reyna að þýða þetta lauslega, ég hef fyrirvara á því, þetta er ekki þýtt af löggiltum aðilum. Þar segir, með leyfi forseta:

Í ljósi þeirra áskorana sem fram undan eru fyrir raforkumarkað Evrópusambandsins og breytingar sem gerðar eru á öðrum hlutum stefnunnar — þ.e. þeirri stefnu sem ég nefndi áðan, um hreina orku fyrir alla Evrópubúa — hefur hlutverk ACER á orkumarkaði og að tryggja öruggt framboð orku aukist. ACER var stofnað undir þriðja orkupakkanum og þá var hlutverkið aðallega bundið við samræmingu, ráðgjöf og eftirlit. En þar sem nýjar reglur um markaðinn munu þýða samstarf yfir landamæri — en skortur var á því, sem sagt í gömlu stefnunni — er svæðisbundið eftirlit yfir landamæri talið hugsanlegt vandamál með hættu á ólíkum ákvörðunum og óþarfatöfum.

Við þessu á sem sagt að bregðast með því að uppfæra þessa stofnun, ACER.

Síðan segir í minni þýðingu, ég tek það fram:

Til viðbótar við samræmingu aðgerða innlendra orkueftirlitsstofnana hafa ACER því verið veittir auknir möguleikar á þeim sviðum þar sem ólíkar innlendar ákvarðanir geta haft áhrif yfir landamæri og eru líklegar til að leiða til vandamála fyrir orkumarkaðinn, þ.e. ef innlendir aðilar taka ólíkar ákvarðanir þá getur það skapað vandamál fyrir heildina. Til dæmis mun ACER hafa eftirlit með svæðisbundnum aðilum í framtíðinni, svæðisbundnum samræmingarstöðvum þar sem kerfisstjórar eða flutningskerfisstjórar ákvarða, og þar sem brotin eða ósamhæfðar aðgerðir gætu haft neikvæð áhrif inn á markaðinn og neytendur.

Fyrirhuguð nálgun mun einnig skýra regluverkið þannig með því að kynna beint samþykki ACER í staðinn fyrir sérstakt samþykki allra innlendra eftirlitsaðila. Þær innlendu stofnanir sem hluti af ACER munu taka ákvörðun um þessi mál með meiri hluta atkvæða.

Gróft sagt er verið að færa meira vald til þessarar stofnunar. Hún mun geta skipt sér meira af því sem gerist innan þeirra ríkja sem taka þátt í þessu samstarfi, sem þýðir að hún mun hafa áhrif á Íslandi vegna þess að við erum að fara að innleiða þessar gerðir með húð og hári, eins og við höfum fengið að heyra og margheyrt í þessum ræðustól og í rauninni utan úr bæ. Við hljótum því að kalla eftir að upplýst verði hvort þessi breyting á ACER muni kalla á annan snúning á íslenskri stjórnarskrá og ýmsu fleiru þarf að svara.