149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Innleiðingin er að fullu. Fyrirvarinn er fyrst og fremst til heimabrúks eins og sérfræðingar hafa lýst. Það er hins vegar mjög áhugavert að heyra þingmann Sjálfstæðisflokksins sitja í þingsal og gjamma fram í í staðinn fyrir að taka þátt í umræðunni, hún skrifar greinar í blöð en treystir sér ekki til að standa hér í ræðustól og svara spurningum sem til hennar er beint.

Ég skora á hv. þingmann sem situr í salnum enn þá að koma í ræðu og svara því fyrst hún hefur engar áhyggjur af orkupakka fjögur og segir að hann sé ekki til umræðu. Má þá skilja það þannig að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eða alla vega hv. þingmanni sem situr í salnum, Bryndísi Haraldsdóttur, sé nákvæmlega sama um það hvort orkupakki þrjú leiði af sér einhverja breytingu sem við þurfum að innleiða af orkupakka fjögur? Ætli þingmenn hafi fengið kynningu á því? Eða lítur þingmaðurinn mögulega bara á það þannig að við innleiðum orkupakka eitt. Punktur. Tvö. Punktur. Þrjú. Punktur. Fjögur. Punktur. Svo allt í einu erum við búin að innleiða alla orkupakka eða ramma Evrópusambandsins og hún sé bara sátt og glöð með það, burt séð frá því hvort orkupakki fjögur t.d. kallar á það að við þurfum að breyta stjórnarskrá okkar eða stofnum henni í einhverja hættu, það sé meira valdframsal, hvort það sem kemur fram í orkupakka fjögur um að efla ACER stofnunina geri að verkum að við þurfum að taka upp þær reglur á Íslandi líka. Hefur þingmaður einhverja hugmynd um það? Ég held ekki. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður hafi ekki hugmynd um það.

Ég skora á hv. þingmann að hætta að gjamma fram í í salnum og koma í ræðu og gefa okkur tækifæri til að spyrja hana þar og ræða þessi mál við hana.

Ég held að mjög mikilvægt sé og við höfum það í huga að við erum að innleiða að fullu þessar tilskipanir Evrópusambandsins. Auðvitað hafa menn mismunandi álit á því hvort þær eru varasamar eða ekki, eða hvort þær eru til bóta eða ekki. En það sem hv. þingmaður sagði um fyrirvarann varðandi stjórnarskrána er að sjálfsögðu allt rétt, enda hafa menn svo sem sagt að þetta sé skárra en ekkert. En þetta skipti ekki öllu máli.