149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég hef skilið þetta rétt, og vonandi verður fjallað um það síðar í kvöld, nær fyrirvarinn sem setja á í reglugerð, sem dreift hefur verið til alla vega utanríkismálanefndar, og væntanlega eru allir þingmenn komnir með það í hendur í dag, bara til annarrar gerðarinnar sem um er rætt. Burt séð frá því hvernig fyrirvararnir eru teiknaðar upp þá hafa lögspekingarnir sem fjallað hafa um málið sagt að fyrirvarinn sé svo sem ágætur en hann sé aðallega til heimabrúks. Auðvitað gildir enginn fyrirvari sem settur er heima á Íslandi í lögum Evrópusambandsins og þegar, eða ef, við skulum frekar orða það svo, rekið verður mál fyrir EFTA-dómstólnum skiptir voða litlu hvaða fyrirvari er settur í reglugerð heima á Íslandi. Það skiptir bara máli hvað stendur í lögum Evrópusambandsins. Ef við höfum innleitt tilskipanir 713 og 714 og allt í kringum það bix, þá eru það þær sem gilda. Það er það sem blasir við okkur, að sjálfsögðu.

Ef við viljum tryggja okkur algjörlega — ég held að stjórnarliðar hafa sagt að þeir séu með belti og axlabönd og veit ekki hvað í þessu máli, en ég held því miður að stjórnarliðarnir séu með allt á hælunum þegar kemur að þessari samlíkingu — er besta leiðin að sjálfsögðu að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og reyna að fá undanþágur frá þessum pakka í heild sinni því að við erum ekkert tengd þessum markaði.

Við getum hins vegar aðlagað íslenska löggjöf, breytt henni eins og við viljum til að bæta umsýsluna innan lands til þess ef við viljum gera eitthvað slíkt. Við þurfum ekkert evrópska löggjöf til þess. Við getum fengið fyrirmyndir alls staðar að.