149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:10]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég hjó eftir nokkrum hlutum þegar hann greindi okkur frá þeirri skýrslu sem kom út í dag sem fjallar um orkunýtni, t.d. bygginga. Ég væri til í að fá kannski útlistun á því hvað það þýðir.

Mér finnst líka einkar merkilegt að talað er um svæði. Þá velti ég fyrir mér, af því að við erum búin að ræða það hér í dag, hvort svæðin verði ekki lengur skilgreind svo mikið landfræðilega heldur verði þetta svæði sem byggjast eða eru sett saman út frá markaðslögmálum orkuviðskipta, ég nota þá skilgreiningu.

Hv. þingmaður kom inn á annað, þ.e. svæðisbundna kerfisstjóra. Það þýðir að við værum með einn svæðisbundinn kerfisstjóra á Íslandi, sem væri þá Orkustofnun hér á landi og þá væri þessi svæðisbundni kerfisstjóri það sem kallað hefur verið landsreglari. Það sem er áhugavert við þetta, talandi um breytingar á ACER sem boðaðar eru í fjórða orkupakka, er að landsreglarinn verður án atkvæðisréttar. Það er svolítið merkileg staðreynd að velta því upp.

Mig langar aðeins í sambandi við þessi svæðismál sérstaklega að spyrja hvort það sé ekki rétt hjá mér að þetta grundvallist allt á þessum markaðslegu orkumálasvæðum, ekki landfræðilegum.