149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:45]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni í þessari ræðu minni, sem gæti orðið í nokkrum hlutum, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 72/2009, en hún er ásamt öðrum skjölum hryggjarstykkið í orkupakka þrjú og stærstur hluti innleiðingarinnar sem við ræðum hér. Í þingsályktunartillögunni í orkupakka þrjú eru reglugerðir 713, 714 og 715 frá 2009 en síðan tilskipanir 72 og 73 frá 2009, sem annars vegar fjalla um raforku en hins vegar um jarðgas. Tilskipun 72 fjallar um rafmagnið. Í 33. gr. er sérstaklega fjallað um markaðsopnun og gagnkvæmni.

Mig langar til að biðja hv. þingmenn um að hafa í huga markaðsopnun og gagnkvæmni. Hér er verið að tala um opinn markað innan Evrópusambandsins og EES-ríkjanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu tryggja að óbundnir viðskiptavinir séu:

a) til 1. júlí 2004, óbundnir viðskiptavinir eins og tilgreint er í 1. til 3. mgr. 19. gr. í tilskipun 96/92/EB. Aðildarríki skulu, eigi síðar en 31. janúar ár hvert, birta viðmiðanirnar fyrir skilgreiningu á þessum óbundnu viðskiptavinum, …“

Óbundinn viðskiptavinur þýðir í samhengi við þessa innleiðingu sem við tölum um hér og er tilgreindur í 12. gr. skilgreininga: „óbundnir viðskiptavinir: viðskiptavinir sem mega kaupa rafmagn af birgi að eigin vali í skilningi 33. gr., …“

Og hver skyldi nú vera birgir? Ekki nafnið Birgir, heldur sá sem safnar saman orku og selur. Ég er ekki að væna hér menn um spillingu.

En áfram með 33. gr., um markaðsopnun og gagnkvæmni. Í 2. lið stendur:

„Til að forðast ójafnvægi við opnun raforkumarkaða:

a) má ekki banna samninga um afhendingu raforku við óbundna viðskiptavini í kerfi annars aðildarríkis ef viðskiptavinurinn telst óbundinn viðskiptavinur í báðum kerfunum og“.

Þá snýst þetta um það að ef þú ert skilgreindur sem óbundinn viðskiptavinur í kerfi, annars vegar á Íslandi til að mynda og síðan í Bretlandi eða Færeyjum eða einhvers staðar annars staðar, þá á þetta við.

„b) er framkvæmdastjórninni heimilt, í tilvikum þar sem viðskiptunum, sem lýst er í a-lið, er synjað af því að viðskiptamaðurinn er aðeins óbundinn viðskiptamaður í öðru kerfinu, og að teknu tilliti til ástandsins á markaðinum og sameiginlegra hagsmuna, að skylda þann aðila sem synjar um viðskiptin til að sjá um afhendingu sem farið var fram á að beiðni aðildarríkisins þar sem óbundni viðskiptavinurinn hefur aðsetur.“

Sem gefur okkur kannski innsýn í það að þarna er verið að reyna að ryðja úr vegi hindrun, þannig að jafnvel þó að þú værir skilgreindur sem óbundinn eða bundinn viðskiptavinur öðru hvorum megin þá er það eitt og sér ekki ástæða til að fullyrða að slíkur aðili gæti ekki átt í slíkum viðskiptum. En ef þú uppfyllir skilyrði í báðum aðildarríkjunum, að þú sért óbundinn viðskiptavinur, þá skal hins vegar þessum heimildum komið á.

Ég get ekki betur séð en að þarna sé raunverulega verið að ræða undir rós um sæstreng þrátt fyrir að þetta geti átt við um grunnvirki yfir landamæri sem liggja ekki í sjó og að stærstum hluta og í flestum tilfellum mun það áreiðanlega eiga við um það. En ég myndi gefa mér það bókstaflega að 33. gr. muni verða túlkuð gagnvart grunnvirkjum yfir landamæri sem liggja í sjó líka.

Það er fleira í tilskipun nr. 72/2009, en ég sé að tíminn er hlaupinn frá mér og ég verð að fá að koma að því í seinni ræðu og bið um að mér verði bætt á mælendaskrá til framhaldsræðu.