149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður fór býsna djúpt í þær skyldur sem innleiðingin mun leggja á herðar Íslendinga, ef ég hef náð því rétt sem þingmaðurinn fór yfir. Því liggur beinast við að spyrja þingmanninn hvort það sé rétt skilið hjá mér að þær reglur sem hann fór yfir eigi þá við um öll grunnvirki í öllum aðildarríkjum EES-svæðisins, þ.e. að sú lýsing sem hann hafði hér uppi muni eiga jafnt við á Íslandi, Noregi, Þýskalandi, Hollandi o.s.frv., sé þetta þannig eins og ég skildi þingmanninn.

Næsta spurning er þá í rauninni um fyrirvarann sem við höfum séð. Tekur hann á þessu að mati þingmannsins? Tekur hann á því að Ísland sé undanskilið þessum reglum, m.a. 33. gr. sem þarna er um fjallað, undanskilið því að ryðja úr vegi öllum hindrunum til að viðskiptamaðurinn, í þessu tilfelli, geti í rauninni keypt eða sýslað með orkuna eins og fyrir honum vakir? Er fyrirvarinn sem við höfum séð settur í reglugerð með stoð í orkulögum eða heldur hann gagnvart þessu að mati þingmannsins? Hefur hann náð að skoða það? Ég spyr um það miðað við það sem hann hefur skoðað fram að þessu: Heldur fyrirvarinn gagnvart þessu?