149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:53]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir andsvarið. Fyrri spurningin snerist eða beindist að því hvort ég teldi að þetta ætti við um öll grunnvirki yfir öll landamæri innan sambandsins. Nú má vera, svo ég taki ekki of stórt upp í mig, að annars staðar sé eitthvað að finna sem myndi gera að verkum að þetta væri ekki fortakslaust, en það væri þá lögskýringargagn sem er ekki að finna í þessum heildarpakka, að ég tel. Hryggjarstykkið í orkupakka þrjú er einmitt þessi tilskipun og síðan er í henni vísað í reglugerðirnar sem við eiga. Ég sé ekki betur en þegar maður skoðar raunverulega markmið bandalagsins í orkumálum og hreinni orku eigi þetta við um öll grunnvirki yfir landamæri er varða í það minnsta raforku, vegna þess að tilskipun nr. 73/2009 varðar lagnir með jarðgas. Vera má að þar séu einhverjir aðrar hömlur. Ég hef ekki skoðað það skjal eins ítarlega.

En varðandi það hvort fyrirvarinn sem settur er hjá okkur sé gildur er ég algerlega orðinn þeirrar skoðunar að hann sé bara til heimabrúks. Hann er bara til þess eins að geta verið alla vega með það mikinn vafa í höndunum um hvort við séum að brjóta stjórnarskrá, að það geti talist réttmætt að fara leiðina. Hann (Forseti hringir.) er bara til þess að geta sagt: Við erum ekki að brjóta stjórnarskrá. Hann kemur þessu ekkert við hvort (Forseti hringir.) orkupakki fjögur verði innleiddur að fullu eða ekki.