149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Það eru kannski tvö atriði sem ég myndi vilja víkja hérna að í andsvörum, en ég álít að bæði atriðin séu þeirrar náttúru og þannig vaxin að ástæða sé til að fjalla um þau mun ítarlegar í umræðunni hér.

Annað atriði er sú gjörð ríkisstjórnarinnar að kalla hér til svissneskan lögmann sem álitsgjafa sem virðist hafa haft að markmiði að draga kjark úr þjóðinni og veikja viðnámsþrótt hennar gagnvart þeirri aðstöðu að gerðar séu kröfur á hendur henni um að hún, til að mega vera áfram þátttakandi í þessu EES-samstarfi, svo ágætt sem það er og mikilvægt fyrir okkur, þ.e. að okkur verði gert að gefa eftir hluta af yfirráðum okkar og fullveldi yfir orkuauðlindum þjóðarinnar.

Það þarf auðvitað að upplýsa hvað lá þarna að baki. Það verður auðvitað að skýra ýmsa þætti í málflutningi álitsgjafans, svo ágætur maður sem þar er á ferðinni, vissulega og að sönnu. Þar á meðal eru yfirlýsingar á borð við að það mál sem er hér til umræðu sé ekki af því tagi að það megi við þessar aðstæður taka upp í hinni sameiginlegu nefnd. Það eru yfirlýsingar um að ef við neytum réttar okkar samkvæmt skýrum ákvæðum í samningnum sjálfum geti það sett stöðu okkar í þessu samstarfi í einhvers konar uppnám. Í þriðja lagi eru yfirlýsingar sem lúta að stöðu okkar í þessu samstarfi gagnvart Noregi sérstaklega. Um þetta mætti hafa miklu fleiri orð en maður hefur tíma hér við þessar aðstæður núna. En þetta er eitt atriðið sem ég vildi gjarnan inna hv. þingmann eftir.